Emil Páll Jónsson

 

Um mig

 

Ég heiti Emil Páll Jónsson og er fæddur rétt fyrir miðja síðustu öld, nánar tiltekið 1949 og er fæddur og uppalinn Keflvíkingur og hef  búið þar alla tíð. Ég hef yfir 30 ára reynslu sem blaða- og fréttamaður. Fyrst fréttaritari hjá Ríkisútvarpinu, síðan varð ég eignaraðili og ritstjóri að Víkurfréttum ásamt öðrum og var þar í 14 ár, eftir það lá leiðin á Beztablaðið, Suðurnesjafréttir, Reykjanestíðindi og að lokum var ég í útgáfu undir nafninu Aestas-kynning sem voru kynningarblöð um fyrirtæki og félagasamtök. Þá hef ég gefið út mikinn fjölda sérblaða bæði sjálfstætt og sem verktaki fyrir aðra og skrifað margar greinar er birtst hafa annarsstaðar og eins tekið myndir fyrir aðra fjölmiðla.

Ljósmyndum hefur alltaf  heillað mig og hef  ég tekið mikinn fjölda af  öllum gerðum  af myndum s.s tískumyndum og fyrirsætumyndum og var á tímabili sem umboðsmaður Almennu umboðsskrifstofunnar með sér fyrirsætu- og tískusýningahóp hér á Suðurnesjum.

Í rúman aldarfjórðungu hefur dálkur sem heitir MOLAR fylgt mér flest árin og var mjög vinsæll sem gagnrýni, grín og vangaveltur. Frá því í jan 2006 hafa MOLAR verið á netinu, nánar tiltekið á síðu minni molar-epj.blogcentral.is. Mun þátturinn vera hér á þessari síða, auk þess sem ég verð með skipamyndir og umsagnir um skip, svo og hugrenningar, fréttir o.fl. tilfallandi, undir nafninu epj.is

Þegar ég fór að hugsa aftur í tímann, mundi ég eftir því að í raun hafði ég ekki komið mikið nálægt blaðburði sem krakki, en þó. Því innan við 10 ára aldur tók ég við því starfi að vera umboðsmaður fyrir barnablaðið Vorið sem gefið var út á Akureyri og kom út í áskrift 4 sinnum á ári. Áður hafði bróðir minn verið umboðsmaður, en þessu starfi gengdi ég í nokkur ár og bar blaðið út til áskrifenda í Keflavík og sá um innheimtu áskriftargjalda.